Brown: Eigum í höggi við fólk tengt al-Qaeda

Gordon Brown, forsætisráðherra, ræðir við Jacqui Smith, innanríkisráðherra og Alan …
Gordon Brown, forsætisráðherra, ræðir við Jacqui Smith, innanríkisráðherra og Alan West, aðstoðarinnanríkisráðherra. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC, að ljóst væri að þeir sem gert hefðu tilraunir til að fremja hryðjuverk í Lundúnum og Glasgow undanfarna daga væru tengdir hryðjuverkasamtökum al-Qaeda. Sagði Brown, að Bretar myndu ekki láta illvirki af þessu tagi hafa áhrif á sig.

„Við munum ekki víkja, við látum ekki hræðast og við munum ekki leyfa neinum að grafa undan breskum lífsháttum," sagði Brown. Hæsta viðbúnaðarstigi vegna hryðjuverkahættu var lýst yfir á Bretlandseyjum í gær.

Brown sagði að aldrei væri hægt að réttlæta hryðjuverk með trú og bætti við: „Þau eru alltaf verk hins illa."

Brown sagði, að rannsókn á málunum gengi vel en ljóst væri að viðvarandi hryðjuverkaógn steðjaði að Bretlandi og öðrum löndum. „Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vernda fólk. Það er afar mikilvægt, að fólk haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist," sagði Brown og bætti við: „Við erum öll á sama báti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert