Bush mildar dóm yfir Libby

Forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, mildaði í dag dóm yfir Lewis „Scooter“ Libby, fyrrverandi skrifstofustjóra varaforseta Bandaríkjanna. Libby var nýverið dæmdur í 2½ árs fangelsi en Bush sagði í dag dóminn vera of þungan. Libby sleppur því við fangelsisvist en Bush hreyfði ekki við 250 þúsund dala sekt, jafnvirði um 15,5 milljóna króna, sem Libby var gert að greiða. Libby verður á skilorði næstu tvö árin og segir Bush að það sé hörð refsing fyrir skrifstofustjórann fyrrverandi.

Greint var frá ákvörðun Bush nokkrum tímum eftir að áfrýjunardómstóll ákvarðaði að Libby gæti ekki frestað því að fara í fangelsi og hefði hann því þurft að hefja afplánun fljótlega.

Libby var dæmdur sekur um meinsæri og tilraunir til að hindra framgang réttvísinnar í mars og í júní var hann dæmdur í 30 mánaða fangelsi, en hann átti þátt í því að hulunni var svipt af CIA-njósnaranum Valerie Plame.

Í yfirlýsingu sem Bush sendi frá sér að hann virði niðurstöðu dómsins. En hann telji að fangelsisdómur sá sem Libby fékk sé of þungur. Því hafi hann ákveðið að milda refsinguna á þann veg að Libby þurfi ekki að fara í fangelsi. Libby þarf eftir sem áður að greiða 250 þúsund dala sekt, jafnvirði um 15,5 milljóna króna en hann var í mars fundinn sekur um meinsæri og að hafa hindrað framgang réttvísinnar.

Harry Reid, þingflokksformaður Demókrataflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, gagnrýndi ákvörðun Bush harðlega í kvöld. Sagði hann að með dómnum yfir Libby hefði Hvíta húsið þurft að axla brot af ábyrgðinni á því að mistúlka upplýsingar um vopnaeign Íraka og þagga niður í þeim sem gagnrýndu Íraksstríðið en nú væri búið að afnema það réttlæti.

Lewis „Scooter“ Libby, fyrrverandi skrifstofustjóri varaforseta Bandaríkjanna
Lewis „Scooter“ Libby, fyrrverandi skrifstofustjóri varaforseta Bandaríkjanna AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert