Leit var hafin að árásarmönnum áður en þeir létu til skarar skríða

Lögregla á Bretlandseyjum er sögð hafa verið að leita að mönnunum tveimur, sem óku logandi bíl á flugstöðvarbyggingu í Glasgow á laugardag, áður en árásin var gerð. Hófst sú leit eftir rannsókn á símtalaskráningu í kjölfar misheppnaðra sprengjutilræða í Lundúnum á föstudag.

Á fréttavef BBC er haft eftir framkvæmdastjóra leigumiðlunar í Paisley, skammt frá Glasgow, að lögreglumenn hefðu á laugardag haft samband við fyrirtækið og viljað vita hvers vegna hringt hefði verið í tiltekið símanúmer frá leigumiðluninni. Mennirnir tveir munu hafa leigt íbúð í gegnum þessa leigumiðlun.

Annar mannanna, sem handtekinn var eftir árásina á Glasgowflugvelli, vann sem læknir í Paisley, að sögn BBC. Sky fréttastofan segir, að hann heiti Bilal Abdulla og sé íraskur að þjóðerni. Þá starfaði jórdanskur maður, sem handtekinn var á laugardag í tengslum við rannsókn málsins, sem læknir á nokkrum sjúkrahúsum á Englandi.

Alls hafa sjö manns verið handteknir vegna málsins.

Bíllinn, sem ekið var á flugstöðvarbygginguna í Glasgow.
Bíllinn, sem ekið var á flugstöðvarbygginguna í Glasgow. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert