Fjöldi barnslíka finnast á Indlandi

Á annan tug plastpoka með höfuðkúpum og líkamshlutum hafa fundist í austurhluta Indlands. Telur lögregla að um sé að ræða fóstur eða nýfædd stúlkubörn sem voru myrt þar sem foreldrar þeirra vildu frekar eignast drengi. Líkin fundust á yfirgefnum stað í nágrenni heilsugæslu í Nayagarh.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur kyn barnanna ekki verið staðfest og ekki er ljóst um hve mörg lík er að ræða. Sjónvarpsstöðvar í héraðinu greina frá því að 37 lík stúlkubarna hafi fundist.

Margar indverskar fjölskyldur telja fæðingu stúlkubarns af hinu slæma vegna þeirrar hefðar að fjölskyldur þurfa að greiða heimamund með þeim er þær ganga í hjónaband.

Talið er að um tíu milljónum fóstra hafi verið eytt á Indlandi síðustu tvo áratugina þegar í ljós hefur komið að mæður þeirra gengu með stúlkur.

Blaðakonan Gita Aravamudan hefur gefið út bók um ótrúlega fækkun stúlkubarna á Indlandi, ástæðurnar sem liggja að baki og jafnvel aðferðirnar sem notaðar eru. Aravamudan segir bókina reyna að gefa vandamálinu mynd, gera það raunverulegra fyrir fólki.

Í bókinni gefur hún dæmi um hvernig stúlkubörnum hefur verið fyrirkomið í gegnum tíðina, þeim hafi til dæmis verið drekkt í mjólk, brennd lifandi í leirkrukkum og eitrað fyrir þau í móðurmjólkinni en nú segir hún algengast að fóstrunum sé eytt strax í móðurkviði.

Nýlega kynntu indversk stjórnvöld nýja herferð gegn kynbundnum fóstureyðingum en í henni felst að skrá allar þunganir kvenna og fylgjast svo með tölu fæðinga. Áætlunin hefur þó verið gagnrýnd og ekki talin raunhæf.

mbl.is

Bloggað um fréttina