Rotnandi hræ í tonna tali

Fyrirtæki í Rúmeníu hefur verið sakað um að losa sig við 47 tonn af dýraskrokkum við útjaðar Búkarest, höfuðborg landsins. Fyrirtækið, Protan, gæti átt von á rúmlega milljón kr. sekt og þeir sem verða dæmdir sekir í málinu gætu átt von á því að verða dæmdir í fangelsi.

Protan neitar sök en yfirvöld hafa kallað eftir því að fyrirtækið aðstoði við að flytja rotnandi hræin frá Comana, segir á vef BBC.

Stjórnvöld í Rúmeníu hafa barist hart gegn ólöglegri losun úrgangs frá því landið gekk í Evrópusambandið 1. janúar í ár, en það hefur verið eitt stærsta verkefni stjórnvalda.

Mjög heitt er í Rúmeníu og víða hefur hitinn farið yfir 38 gráður. Það er því ekki að furða að kjötið er farið rotna þar sem það liggur skammt frá hraðbraut. Skrokkunum var komið fyrir í svörtum ruslapokum en sumstaðar glittir í alifugla og jafnvel dauð hross.

Það hefur hvöss vindátt ekki verið til þess að bæta ástandið, en megnan óþef leggur frá rotnandi hræjunum. Menn hafa þó mestar áhyggjur af því að fólk geti sýkst og veikst af þessum völdum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert