46 ár frá byggingu Berlínarmúrsins

Bútar í Berlínarmúrnum við Potsdamertorg í Berlín.
Bútar í Berlínarmúrnum við Potsdamertorg í Berlín. AP

Þess er minnst í Berlín að í dag eru liðin 46 ár frá því stjórnvöld í Austur-Þýskalandi hófu að reisa Berlínarmúrinn svonefnda en múrinn var reistur milli Austur- og Vestur-Berlínar og einnig umhverfis vesturhlutann. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir að íbúar í Austur-Þýskalandi flýðu land til Vestur-Berlínar en talið er að 3 milljónir manna hafi farið þá leið á árunum 1949 til 1961.

Berlínarmúrinn varð með tímanum tákn fyrir kúgun íbúa Austur-Þýskalands. Bygging múrsins tók skamman tíma árið 1961 en hann var rifinn á nánast jafn skömmum tíma árið 1989 þegar stjórnvöld í Austur-Þýskalandi misstu tökin. Nú standa aðeins samtals um 2 kílómetrar eftir af múrnum, sem var 160 km langur.

Borgarstjórn Berlínar hefur nú látið leggja hjólreiðabraut, sem nefnd er Berliner Mauerweg, þar sem múrinn stóð.

„Múrinn er hluti af sögu okkar og við getum ekki þurrkað hann út," hefur blaðið Guardian í dag ef eftir borgarfulltrúanum Michael Cramer, sem hefur beitt sér fyrir því að vegurinn yrði lagður.

mbl.is

Bloggað um fréttina