Dönskum hjónum rænt af heimili sínu

Hjónum í Ganløse í Danmörku var rænt af heimili sínu í nótt. Fólkið var neytt til að skilja tvö ung börn sín eftir sofandi á heimilinu og aka með ræningjunum í bil fjölskyldunnar í um hálftíma. Þá var þeim hent út úr bílnum og þau skilin eftir við hraðbrautina á milli Allerød og Hillerød. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Þrír til fjórir vopnaðir menn réðust inn á heimili fjölskyldunnar um miðnætti síðastliðna nótt, börðu fólkið með byssum sínum, bundu það og kefluðu og höfðu það síðan á brott með sér.

Nágrannar heyrðu fólkið hrópa á hjálp og kölluðu á lögreglu en er hún kom á staðinn voru börnin ein eftir í húsinu.

Talið er að ræningjarnir hafi viljað neyða manninn til að opna húsnæði rafeindafyrirtækis sem hann starfar hjá. Einhverra hluta vegna hættu þeir hins vegar við að aka að fyrirtækinu. Í morgun fannst bíll hjónanna í Gladsaxe þar sem kveikt hafði verið í honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert