Tíu manns handteknir í Rússlandi vegna morðs á blaðakonu

Morðinu á Önnu Politkovskaju mótmælt á Púsjkin torgi í Moskvu …
Morðinu á Önnu Politkovskaju mótmælt á Púsjkin torgi í Moskvu á síðasta ári. AP

Rússneskir fjölmiðlar hafa eftir ríkissaksóknara Rússlands, að tíu manns hafi verið handteknir í tengslum við rannsókn á morðinu á blaðakonunni Önnu Politkovskaju á síðasta ári. Morðið vakti mikla reiði víða um lönd og voru rússnesk stjórnvöld gagnrýnd harðlega fyrir aðgerðaleysi í kjölfarið. Þá vakti morðið ótta um öryggi blaðamanna og stjórnarandstæðinga í Rússlandi.

„Við höfum náð miklum árangri í málinu," hefur ITAR-Tass fréttastofan eftir Júrí Tsjaika, ríkissaksóknara en hann gekk á fund Vladímírs Pútíns, forseta í morgun. „Nú hafa 10 verið handteknir og á næstunni verða þeir ákærðir fyrir þennan alvarlega glæp."

Politkovskaja var skotin til bana í október sl. í fjölbýlishúsi í Moskvu, þar sem hún bjó. Politkovskaja gagnrýndi stjórnarstefnu Pútíns harðlega og var að leggja síðustu hönd á grein um mannréttindabrot í Tétsníu þegar hún var myrt.

Morðið á Politkovskaju vakti athygli á þeim hættum, sem blaðamönnum í Rússlandi eru búnar. Þar tengjast öflugustu fréttastofurnar rússneskum stjórnvöldum og gagnrýni á Kreml er fátíð. Alþjóðasamband blaðamanna segir, að yfir 80 blaðamenn hafi verið myrtir vegna starfa sinna í Rússlandi frá árinu 1993.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert