Danskur ferðamannaiðnaður að dragast aftur úr

Við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn.
Við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Ferðamannaiðnaðurinn í Kaupmannahöfn blómstrar og hefur hótelnýting aldrei verið jafn góð í dönsku höfuðborginni. 2,9 milljónir manna gistu á hótelum í borginni fyrstu sex mánuði ársins, sem er aukning um 5,1% miðað við síðasta ár. Erlendir ferðamenn virðast þó hafa minni áhuga en áður því þeim hefur fækkað um 1,1%. Fréttavefur Berlingske Tidende segir frá þessu.

Talsmenn ferðamannaiðnaðarins eru því ekki fullkomlega ánægðir vegna þess að ferðamenn frá löndum sem mikilvæg eru fyrir danskan ferðamannaiðnað virðast sýna minni áhuga en áður. Hluta af fækkuninni má skýra með því að mikill fjöldi sótti þing Rótarýhreyfingarinnar á síðasta ári, en þótt sá munur sé tekinn með í reikninginn er aukningin minni en meðaltalsaukningin í evrópskum ferðamannaiðnaði.

Mikil aukning hefur verið í stórborgaferðamennsku undanfarin ár, bæði hvað varðar sumarleyfi og ráðstefnur, og er Kaupmannahöfn að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Borgin er nú í sextánda sæti yfir vinsælustu ráðstefnuborgirnar í Evrópu, en var á listanum yfir tíu vinsælustu borgirnar allt frá árinu 1995 og þar til nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert