Forstjóri Alcoa hvetur til aðgerða gegn loftslagsbreytingum

Alain Belda, forstjóri Alcoa.
Alain Belda, forstjóri Alcoa. AP

Alain Belda forstjóri og stjórnarformaður Alcoa sem á álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði, sagði í gær á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, að hann væri þess fullviss að hægt væri að koma á nýju, alþjóðlegu samkomulagi um viðbrögð við loftslagsbreytingum.

Hann telur að hægt sé að gera slíkt samkomulag þannig úr garði að það leiði til efnahagslegra tækifæra frekar en áhættu. Yfir 70 þjóðarleiðtogar sækja ráðstefnuna sem haldin er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Belda tók þátt í umræðum um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann sagði að alþjóðafyrirtæki á borð við Alcoa vildu að Sameinuðu þjóðirnar stæðu að gerð raunhæfrar og sanngjarnar áætlunar um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann vildi að slíkt samkomulag tæki tillit til mismunandi hagkerfa og væri bindandi fyrir öll þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum," samkvæmt fréttatilkynningu.

„Áætlunin þyrfti að vera sveigjanleg og stuðla að því að fyrirtæki gripu strax til hagkvæmra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hún ætti einnig að stuðla að fjárfestingu í þróun og notkun nýrrar tækni sem gæti dregið úr losun. Tækniframfarir hafa verið forsendur efnahagslegs vaxtar í heiminum,” sagði Belda. “Í áætluninni þyrfti ennfremur að koma fram hvernig megi mæla og draga úr aukinni losun sem stafar af breyttri landnotkun og eyðingu skóga. Ég held að við höfum engan annan kost en að bregðast við því það er allt of áhættusamt að gera það ekki. Alcoa er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í heiminum og mun leggja sitt af mörkum í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Við hlökkum til að vinna með ykkur að nauðsynlegu alþjóðlegu átaki í því skyni,“ sagði Belda að lokum, að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert