Gorbatsjov varar við endurfæðingu Stalínismans

Mikhaíl Gorbatsjov.
Mikhaíl Gorbatsjov. Reuters

Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, varaði Rússa við því í dag, að hætta væri á að Stalínismi skyti rótum á ný í Rússlandi. Þjóðin mætti ekki gleyma sorglegri fortíð sinni. Kom þetta fram í ávarpi hans á ráðstefnu í tilefni þess að 70 ár eru frá upphafi ógnarstjórnar Jósefs Stalíns.

„Við verðum að kreista úr okkur Stalínismann, ekki í dropatali heldur lítravís,“ sagði Gorbatsjov. Á tímum ógnarstjórnarinnar voru 1,7 milljónir sovéskra borgara handteknar frá því í ágúst 1937 fram í nóvember árið eftir. Þar af voru 818.000 teknir af lífi, samkvæmt tölum mannréttindasamtakanna Memorial.

Sagnfræðingar telja að allt að 13 milljónir manna hafi verið myrtar eða sendar í þrælkunarbúðir í Sovétríkjunum frá 1921 til 1953, þegar Stalín lést.

Þrátt fyrir þetta hafa nýlegar skoðanakannanir sýnt að margir Rússar af yngri kynslóðinni hafa jákvæð viðhorf til Stalíns, og á þessu ári hafa verið gerðar tilraunir til að draga úr því hversu skelfileg stjórn hans hafi verið.

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í júlí telja 54% ungra Rússa að Stalín hafi gert fleira gott en illt, og helmingur aðspurðra taldi hann hafa verið vitran leiðtoga.

mbl.is

Bloggað um fréttina