Laura Bush vill að herforingjastjórnin í Búrma víki

Laura Bush, forsetafrú Bandaríkjanna.
Laura Bush, forsetafrú Bandaríkjanna. Reuters

Forsetafrú Bandaríkjanna, Laura Bush, hefur kallað eftir því að herforingjastjórnin í Búrma víki til hliðar og hætti herferð sinni gagnvart íbúum landsins. Þá kallar hún eftir því að teknir verði upp lýðræðislegir hættir í landinu. Þetta kemur fram í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal í dag.

„Than Shwe herforingi og fulltrúar hans eru ríkisstjórn án vina,“ sagði Bush. „Þeir ættu að víkja til hliðar fyrir sameinuðu Búrma sem er undir stjórn lögmætra leiðtoga,“ sagði Bush.

„Aðrir í hernum ættu ekki að óttast þessa breytingu - það er pláss fyrir atvinnuher og lýðræðislegt Búrma,“ sagði forsetafrúin.

Þá kallaði Bush eftir því að herforingjastjórnin í Búrma sleppi leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Suu Kyi, auk annarra stjórnarandstöðuleiðtoga svo þeir geti fundað um breytingu í átt til lýðræðis í landinu.

„Heimurinn fylgist með á meðan - og bíður,“ sagði forsetafrúin.

mbl.is

Bloggað um fréttina