Tyrkir fordæma atkvæðagreiðslu um þjóðarmorð í Bandaríkjunum

Tyrknesk stjórnvöld hafa fordæmt atkvæðagreiðslu á bandaríska þinginu um að skilgreina fjöldamorð Tyrkja á Armenum á árunum 1915 - 1917 sem þjóðarmorð. Talsmenn Hvíta hússins hafa sagst vonsviknir yfir atkvæðagreiðslunni þar sem óttast er að lögin muni breyta afstöðu Tyrkja í stríðinu gegn hryðjuverkum ef þau taka gildi.

Ályktunin var samþykkt í utanríkismálanefnd fulltrúadeildarinnar með 27 atkvæðum gegn 21, en slíkt er fyrsta skrefið að því að kosið verði um málið í fulltrúadeildinni.

Málið er orðið þverpólitískt deilumál en átta demókratar greiddu atkvæði gegn tillögunni, en átta repúblikanar kusu með henni.

Bush, Bandaríkjaforseti, hefur varað við atkvæðagreiðslunni. Bandaríkjamenn hafa mikilvæga aðstöðu fyrir herinn í Tyrklandi, og hafa Tyrkir reynst dyggir stuðningsmenn Bandaríkjamanna í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Abdullah Gul, forseti Tyrklands, var harðorður í garð Bandaríkjamanna í gærkvöldi og sakaði bandaríska stjórnmálamenn um að fórna skynseminni í þágu stjórnmálaleikja heima fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert