Leiða friðarverðlaun Gores til forsetaframboðs?

Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, sagði að það gæfi friðarverðlaunum Nóbels, sem hann hlaut í morgun, aukið vægi að loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna skuli deila þeim með honum.

Vangaveltur eru um að Gore muni nýta þá athygli, sem verðlaunin færa honum, til að bjóða sig fram sem forseta Bandaríkjanna á næsta ári. Gore hefur hins vegar sagt, að hann hyggi ekki á framboð.

Gore sagði, að loftslagsnefnd SÞ væri virtasta vísindastofnun heims, sem beitti sér fyrir því að bæta þekkingu og skilning á loftslagsbreytingum. Hann sagði, að málið snérist ekki um pólitík heldur aðsteðjandi ógn.

„Við sjáum fram á hnattrænt neyðarástand... Þetta er siðferðilegt og andlegt verkefni, sem allur heimurinn þarf að takast á við. Þetta er einnig besta tækifæri okkar til að auka vitund heimsins um þessi mál," sagði Gore.

Hann sagðist ætla að ánafna bandarísku umhverfissamtökunum Alliance for Climate Protection verðlaunaupphæðina en þau samtök reyna að breyta almenningsálitinu í Bandaríkjunum og um allan heim og vekja til umhugsunar um áhrif loftslagsbreytinga.

Carola Traverso Saibante, talsmaður loftslagsnefndar SÞ, sagði að verðlaunin hefðu komið á óvart og allir hefðu verið ánægðir þótt Gore hefði fengið þau einn.

Í umsögn verðlaunanefndarinnar segir, að loftslagsnefndin hafi í tvo áratugi aukið skilning á tengslum mannlegra gerða og hlýnunar andrúmsloftsins. Þúsundir vísindamanna og embættismanna frá yfir 100 löndum hefðu átt samstarf um rannsóknir á þessum málum.

Al Gore.
Al Gore. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert