Einstaklingar tilbúnir til að leggja meira að mörkum til umhverfismála

Liðsmenn Greenpeace samtakanna á Filippseyjum krefjast tafarlausra aðgerða gegn losun …
Liðsmenn Greenpeace samtakanna á Filippseyjum krefjast tafarlausra aðgerða gegn losun gróðurhúsalofttegunda. AP

Fjórir af hverjum fimm íbúum rúmlega tuttugu landa segjast reiðubúnir til að færa persónulegar fórnir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun BBC. 22.000 manns tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var í 21 landi en könnunin fór á meðal annars fram í Bandaríkjunum og Kína þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er mest miðað við mannfjölda. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt könnuninni telja 83% aðspurðra að einstaklingar verði að draga úr neyslu sinni til að hægt sé að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Þá segjast þrír af hverjum fjórum þátttakendum í könnuninni styðja orkuskatta að því tilskyldu að þeim verði varið til rannsókna á umhverfisvænum orkugjöfum

Það vekur athygli að mestur er stuðningurinn við orkuskatta á meðal Kínverja. Íbúar Ítalíu og Rússlandi skera sig hins vegar úr að því leyti að flestir þeirra telja ekki nauðsynlegt að grípa til orkuskatta í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Matt McGrath, sérfræðingur BBC, segir niðurstöður könnunarinnar sýna að almenningur í mörgu löndum sé tilbúnari til að leggja meira að mörkum í umhverfismálum en stjórnmálamenn virðist gera sér grein fyrir.

mbl.is