Fyrsti fundur Suu Kyi með flokksfélögum í þrjú ár

Aung San Suu Kyi og Ibrahim Gambari
Aung San Suu Kyi og Ibrahim Gambari Reuters

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Búrma, Aung San Suu Kyi, átti fund með þremur flokksmönnum sínum í morgun og er þetta í fyrsta skipti í þrjú ár sem herforingjastjórnin heimilar að hún ræði við flokksfélaga sína.

Suu Kyi er mjög bjartsýn á gang viðræðna Sameinuðu þjóðanna og herforingjastjórnarinnar á Búrma, að sögn talsmanns flokks hennar.

Herforingjastjórnin veitti heimild fyrir fundinum degi eftir að sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Ibrahim Gambari, lauk sex daga heimsókn til Búrma en hann vinnur að því að koma á viðræðum millli herforingjastjórnarinnar og Suu Kyi.

Suu Kyi er þekkt um heim allan fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í Búrma, en hún hefur eytt 11 af undanförnum 17 árum í stofufangelsi. Stjórnmálaflokkur Aung San Suu Kyi vann sigur í þingkosningum árið 1990 en úrslit kosninganna voru hunsuð af her landsins sem tók völd í landinu tveimur árum fyrr. Árið 1991 fékk Aung San Suu Kyi Friðarverðlaun Nóbels. Hún hefur verið í stofufangelsi samfleytt frá árinu 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert