Ómetanlegar heimildir

Ómetanlegar heimildamyndir - sem teknar voru fyrir rúmum sextíu árum af greftrun jarðneskra leifa Jónasar Hallgrímssonar - eru til hjá Kvikmyndasafni Íslands, en ekki er vitað fyrir víst hvort þær hafi komið fyrir almenningssjónir áður. Liðin eru 200 ár frá fæðingardegi þjóðskáldsins, sem í dag er tileinkaður íslenskri tungu.

Myndirnar sem teknar voru af jarðsetningu beina Jónasar eru úr safni Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara, sem var nokkurs konar hirðljósmyndari ríkisstjórnar og forsetaembættis á sínum tíma. Hann var einnig áhugamaður um kvikmyndagerð.

Bein þjóðarskáldsins Jónasar hvíldu í danskri mold í 101 ár, en um miðbik síðustu aldar var tekin ákvörðun um að fá þau heim til Íslands. Í Öldinni okkar segir að flutningur beinanna og ákvörðun um hvar þau yrðu jarðsett hafi valdið miklum deilum og blaðaskrifum. Hafi jarðneskar leifar skáldsins í fyrstu verið fluttar norður að Bakka í Öxnadal þar sem átti að jarðsetja þær, en að fyrirskipan íslenskra stjórnvalda hafi beinin hins vegar verið tekin með fógetavaldi úr Bakkakirkju og flutt aftur suður. Þar voru þau jarðsett í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum á afmælisdegi skáldsins, 16. Nóvember 1946. Athygli vekur að kvikmynd Vigfúsar eru í lit.

Helstu ráðamenn, rithöfundar, náttúrufræðingar og aðrir mikils metnir menn voru viðstaddir jarðaför Jónasar á Þingvöllum, auk biskups og vígslubiskups. Átta alþingismenn báru kistu skáldsins úr kirkju og fóru Jónas Jónsson frá Hriflu og Ólafur Thors fremstir. Kvikmyndin er talin mjög merk heimild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert