Slegist í fæðingarkirkju frelsarans

Tugir lögreglumanna voru sendir á staðinn til að stilla til …
Tugir lögreglumanna voru sendir á staðinn til að stilla til friðar milli prestanna. AP

Sjö særðust þegar átök brutust út milli presta grísku rétttrúnaðarkirkjunnar og armenskra starfsbræðra þeirra í Betlehem. Deilan snerist um það hvernig þrífa ætti fæðingarkirkju frelsarans í borginni.

Í kjölfar jólahátíðarhaldanna hófu prestar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar að þrífa veggi og loft kirkjunnar sem tilheyrir þeim, en kirkjan er sögð hafa verið reist þar sem Jesús er talin hafa fæðst.

Stigar sem grísku prestarnir notuðu við þrifin þrengdu hinsvegar að armensku prestunum. Að sögn ljósmyndara á svæðinu leiddi það til snarpra orðaskipta á milli guðsþjóna.

Prestarnir létu í framhaldinu hnefana tala og stóðu átökin í um 15 mínútur. Sumir notuðu einnig járnkylfur og sópa til að lumbra á starfsbræðrum sínum. Ljósmyndararnir, sem voru komnir til að mynda þrifin, fylgdust með og tóku myndir af slagsmálunum.

Fjöldi óvopnaðra palestínskra lögreglumanna voru sendir á staðinn til þess að stía prestunum í sundur. Tveir lögreglumenn meiddust í hamaganginum.

„Nú sem endra nær er það hvernig þrífa eigi kirkjuna eftir jól orsök vandamálanna,“ sagði borgarstjórinn í Betlehem, Victor Batarseh, í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann bætti því við að hann hafi lagt sín lóð á vogarskálarnar til að leysa vandann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert