Tugir látast í Íran af völdum veðurs

Margir hafa fagnað snjónum líkt og þessar konur sem skemmtu ...
Margir hafa fagnað snjónum líkt og þessar konur sem skemmtu sér hið besta í almenningsgarði norður af Teheran. AP

Mikið hefur snjóað í Íran að undanförnu og er talið að minnsta kosti 28 manns hafi látið lífið í landinu af völdum veðursins. Átta manns frusu til dauða þegar snjóbylur varð til þess að 40.000 ökumenn komust hvorki lönd né strönd.

Búið er að koma flestum til bjargar en talið er að 20 manns til viðbótar hafi látist af völdum óveðursins.

Írönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að næstu tveir dagar verði frídagar, og þá hafa þau hvatt fólk til þess að halda sig heima.

Kuldinn í landinu hefur farið í -24 gráður á Celsíus. Þá hefur snjór sést á eyðimerkursvæðinu í suðurhluta landsins, og er það í fyrsta sinn sem það gerist að því er elstu menn best vita.

Menn óttast að kuldatíðin muni leiða til eldsneytisskorts, en víða er olía er notuð til kyndingar á heimilum í landinu.

Þá hefur flugvöllurinn í Teheran verið opnaður á nýjan leik en þar ríkir hinsvegar glundroði. Að sögn fréttaskýranda BBC tekur það um fimm klukkustundir að koma farþegum úr flugvélunum og í bílana þeirra.

mbl.is