Unnið að lokun landamæranna

Palestínumenn fara yfir landamæri Gasasvæðisins og Egyptaland við Rafah landamærastöðina.
Palestínumenn fara yfir landamæri Gasasvæðisins og Egyptaland við Rafah landamærastöðina. AP

Egyptar freista þess nú, með aðstoð öryggisveita Hamas-samtakanna, að ná stjórn á ástandinu á landamærum Egyptalands og Gasasvæðisins. Tekið hefur verið fyrir umferð ökutækja yfir landamærin og eftirlit aukið með umferð til og frá landamærabænum Rafah. Þá hefur gat á landamæraveggnum verið fyllt af sandi.

Egypskir lögreglumenn hafa einnig gefið sig á tal við Palestínumenn á götum bæjarins El-Arish, sem er í nágrenni Rafah, og skipað þeim að halda heim. Þá hafa verslunareigendur í bænum fengið fyrirmæli um að hætta viðskiptum við Palestínumenn

Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands, átti fund með Salam Fayyad, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna í dag og sagði að þeim fundi loknum að Egyptar styddu eldra samkomulag um að yfirvöld í Ísrael og á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum fari með landamæraeftirlit á svæðinu í samvinnu við eftirlitsmenn Evrópusambandsins.

Hamas-samtökin sem fara með völd á Gasasvæðinu, neita hinsvegar að virða þetta samkomulag. „Við verðum að komast að nýju samkomulagi varðandi landamæri Palestínu og Egyptalands með viðræðum Hamas, Fatah og Egyptalands,” sagði Sami Abu Zuhri,talsmaður Hamas-samtakanna í morgun. „Við viljum taka af allan vafa um það að Rafah landamærastöðin er landamærastöð Palestínumanna og Egypta og að við munum ekki sætta okkur við neina þá  lausn málsins sem er ekki í samræmi við það."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert