Írakar fordæma innrás Tyrkja

Ríkisstjórn Íraks fordæmir innrás Tyrkja í norður-Írak sem hófst í síðustu viku.  Í yfirlýsingu frá ríkistjórninni segir að hún fordæmi og hafni aðgerðum Tyrkja harðlega, og krefst ríkistjórnin þess að Tyrkir til kalli herlið sitt heim.

Á fréttavef BBC kemur fram að átök hafi staðið í fimm daga á milli tyrkneska hersins og uppreisnarmanna.  Tyrkneski herinn segist hafa fellt 153 uppreisnarmenn og misst 17 hermenn frá því innrásin hófst síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar Tyrkir fóru yfir landamærin inn í norður-Írak til þess að leita uppi uppreisnarmenn úr Verkamannaflokki Kúrdistan (PKK).

Írakar segja aðgerðir Tyrkja vera óvirðingu við fullveldi Íraks. Talsmaður tyrkneskra yfirvalda hefur sagt að Tyrkir eigi rétt á því að verjast gagnvart árásum sem eru gerðar frá Norður-Írak, og segir að aðgerðirnar muni standa eins lengi og þörf sé á.

mbl.is

Bloggað um fréttina