Krossfestingar á Filippseyjum

Líkt og áður lét hópur fólks á Filippseyjum krossfesta sig í dag, á föstudaginn langa. Filippseyingar eru að stærstum hluta kaþólskir og á föstudaginn langa safnast saman fjöldi manns sem setur á svið krossfestingu Jesú með því að láta negla sig á viðarkrossa. Við sama tækifæri lemja sig hundruð manna með svipum þar til bök þeirra eru blóðug og skorin, til að bæta fyrir syndir liðins árs. Kaþólska kirkjan er ekki mjög fylgjandi athöfnunum sem eiga sér stað víðsvegar um landið og draga að sér fjölda ferðamanna ár hvert.

Meðal þeirra var Fernando Mamangon, 37 ára, en hann ásamt þrjátíu öðrum ætlaði að fara í gegnum krossfestinguna í borginni San Fernando í dag. Í nágrannahéraðinu Bulacan ætluðu fimm að láta krossfesta sig, þar á meðal ein kona. Er þetta þrettánda árið í röð sem Mamangon lætur krossfesta sig á föstudaginn langa en að hans sögn gerði hann þetta í fyrsta skipti vegna alvarlegra veikinda bróður. Bróðir hans hafi náð fullum bata en hins vegar væri sonur hans veikur í maga þannig að hann ákvað að láta krossfesta sig enn eitt árið. 

Þeim sem hugðust láta krossfesta sig á Filippseyjum í dag var ráðlagt af yfirvöldum að láta bólusetja sig gegn stífkrampa og gæta þess að sótthreinsa nagla og svipur til að forðast sýkingar eftir fremsta megni.

Heilbrigðisráðherrann, Francisco Duque, segir erfitt að telja húðstrýkjendunum hughvarf en að hvetja til hreinlætis sé það minnsta sem hægt sé að gera. Auk þess að sótthreinsa svipurnar sem skera hold þátttakenda hefur heilbrigðisráðherrann mælt með því að 15 sentimetra langir naglarnir verði sótthreinsaðir fyrir notkun.

AP
Frá Filippseyjum í dag.
Frá Filippseyjum í dag. AP
AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert