Aðgerða er þörf strax segir yfirmaður Alþjóðabankans

Frá Port au Prince, höfuðborg Haíti
Frá Port au Prince, höfuðborg Haíti Retuers

Yfirmaður Alþjóðabankans, Robert Zoellick, hvatti í kvöld stjórnvöld heimsins til aðgerða strax vegna hækkunar á matvælaverði, svo sem á korni og hrísgrjónum. Hátt matvælaverð hafi kostað hungursneyð og ofbeldi í nokkrum löndum að undanförnu. Zoellick sagði að alþjóðasamfélagið verði að setja fé á þá staði þar sem hungrið sverfur að. Það sé skylda okkar að aðstoða þá sem svelta í heiminum.

Að sögn Zoellick er nauðsynlegt að stjórnvöld komi að því að útvega matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna 500 milljónir Bandaríkjadala en það eru þeir fjármunir sem nauðsynlega vantar upp á í neyðaraðstoð á næstu vikum. Segir hann nauðsynlegt að ríkisstjórnir staðfesti stuðning sinn eins fljótt og auðið er. Verðlag á matvælum hafi hækkað að undanförnu og ekki útlit fyrir að það geri annað en að hækka á næstunni.  

Ástandið er einna verst á Haíti og í gær samþykkti þing landsins að reka forsætisráðherra landsins frá völdum. Í dag var starfsmaður Sameinuðu þjóðanna myrtur í höfuðborg Haíti í átökum sem brutust út vegna þess hve hátt verð á matvælum er orðið í landinu. Alþjóðabankinn hefur ákveðið að setja 10 milljónir dala í matvælaaðstoð á Haíti á næstunni. 

Zoellick sagði í dag að því væri oft þannig farið er fjármálaráðherrar alþjóðasamfélagsins kæmu saman að meira væri um orð heldur en aðgerðir. Hann sagðist hins vegar skynja að breyting væri að verða þar á. Enda þurfi þróunarlöndin á aðstoð að halda núna.

Starfsmaður SÞ var myrtur á Haíti í dag
Starfsmaður SÞ var myrtur á Haíti í dag AP
mbl.is

Bloggað um fréttina