Vaxtarverkir neyslusprengju

Matvælaverð fer víðast hvar í heiminum hækkandi
Matvælaverð fer víðast hvar í heiminum hækkandi Reuters

Ört stækkandi millistétt þrýstir á verðhækkanir á ýmsum vörum með þeim afleiðingum að fátækir hafa ekki lengur efni á að kaupa sér helstu nauðsynjar og hætta skapast á hungursneyð.

Mannkynið stendur á miklum krossgötum. Framleiðslu- og tæknibyltingin sem færði Vesturlöndum gífurlegan auð er að umbylta lífsskilyrðum hundruðum milljóna manna í fjölmennustu ríkjum heims og óumdeilt er að ásókn í auðlindir á eftir að aukast gífurlega frá því sem nú er.

Millistéttin í fátækum ríkjum er sá hluti íbúafjöldans sem mun vaxa hraðast. Á sama tíma og jarðarbúum mun fjölga um milljarð á næstu tólf árum er áætlað að átján hundruð milljónir manna muni bætast við millistétt heimsins.

Þessi fyrirséða og óumflýjanlega þróun á eftir að móta hagkerfin og allar líkur eru á að ríki auðug af auðlindum muni hagnast gríðarlega á komandi áratugum, eftir því sem verðið á hráefnisvörum fer stöðugt hækkandi.

Enginn veit hvenær lögmál framboðs og eftirspurnar munu koma á jafnvægi á matvörumarkaðnum, þótt greinendur hafi nefnt allt að áratug í þessu samhengi. Það er langur tími.

Þróunin á eftir að færa mörgum auð og gera milljónum manna kleift að upplifa draum sinn. En það er önnur dekkri hlið á teningnum, nefnilega hin grimmu og miskunnarlausu félagslegu áhrif þess þegar fátækasti hluti mannkyns hættir að geta haldið í við hækkandi verð á nauðsynjum.

Braskarar spenna upp verðið

Matarkreppan sem nú ríður yfir heimsbyggðina er ágætt dæmi.

Hröð fjölgun fólks í millistétt í Asíu kallar á aukna kjötframleiðslu, sem aftur eykur eftirspurnina eftir fóðri og kornmeti. Spákaupmenn braska með hráefnisvörur og áherslan á vinnslu lífræns eldsneytis þrýstir á hækkanir á landbúnaðarvörum.

Tíðarfarið hefur vegið þungt og miklir þurrkar í Ástralíu leitt til hækkana á hveiti, samtíma því sem aukin velmegun hefur gert milljónum kleift að láta af sjálfsþurftarbúskap. Lítum á nokkrar tölur.

Sérfræðingar McKinsey Global Institute ráðgera að verði meðalhagvöxtur á Indlandi næstu árin í kringum 7,3 prósenti muni ársvelta indverska neytendamarkaðarins fjórfaldast, úr 372 milljörðum dala árið 2005 í 1.532 milljarða dala 2025, eða úr 26.892 milljörðum íslenskra króna í 110.750 milljarða króna, ígildi tæplega 180-faldra heildartekna hins opinbera á Íslandi 2007. Á sama tíma muni fólki í millistétt samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar fjölga úr 50 milljónum manna í 583 milljónir manna, hátt í tvöfaldan íbúafjölda Bandaríkjanna í dag. (Talið er að um þetta leyti muni Indverjar fara fram úr Kínverjum sem fjölmennasta þjóð mannkynssögunnar).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina