Sýnir enga iðrun

Dómari í Austurríki framlengdi í dag varðhald yfir Josef Fritzl, 73 ára manni sem lokaði dóttur sína niðri í jarðhýsi í 24 ár og gerði henni 7 börn. Starfsfólk í fangelsinu þar sem Fritzl er í haldi, segir hann vera rólegan og virðist ekki iðrast gerða sinna.

Bæjaryfirvöld í Amstetten þar sem Fritzl býr, sögðust í dag hafa grennslast fyrir um hagi hans þegar hann fékk forræði yfir þremur börnum, sem hann eignaðist með dóttur sinni. Fritzl sagði, að dóttir hans hefði hlaupist á brott árið 1984 og síðan skilið þrjú börn eftir á tröppum foreldra sinna.

Fritzl ættleiddi fyrsta barnið árið 1994. Hans-Heinz Lenze, skrifstofustjóri borgarstjórnar Amstetten, sagði á blaðamannafundi í dag, að þá hefði Fritzl og Rosemarie kona hans verið með hreint sakarvottorð. Einnig var farið yfir öll gögn, sem tengdust hvarfi Elisabeth dóttur þeirra.

Fram kom í austurrískum fjölmiðlum í dag, að Fritzl hefði verið fundinn sekur um nauðgunartilraun og íkveikju á sjöunda áratug síðustu aldar.

Lenze sagði að félagsmálayfirvöld hefðu farið að minnsta kosti  21 sinni í heimsókn til Fritzlhjónanna eftir að þau ættleiddu börnin þrjú. Josef var sjaldnast heima en borgarstarfsmennirnir sáu ekkert athugavert við heimilishaldið og uppeldi barnanna.

Forseti héraðsdómsins í Amstetten, sem veitti Fritzl heimild til ættleiðingar, sagði að engar efasemdir hefðu verið um hjónin.  

mbl.is

Bloggað um fréttina