Yfir 22 þúsund látnir á Búrma

Talið er að yfir 22 þúsund manns hafi látist í fellibylnum Nagris sem reið yfir Búrma um helgina, samkvæmt frétt í ríkisútvarpi landsins. Talið er að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar en yfir 40 þúsund manns er saknað.  Hundruð þúsunda íbúa eru án vatns og húsaskjóls.

Í frétt ríkisútvarpsins á Búrma kemur fram að staðfest sé að 22.464 séu látnir. Erfiðlega hefur gengið að koma neyðarhjálp á þau svæði sem verst urðu úti þar sem vegir eru ónýtir og ekkert fjarskiptasamband þar. 

Erlendir hjálparstarfsmenn segja að ástandið á svæðunum sé skelfilegt og lík liggi eins og hráviði á hrísgrjónaökrum. Þá hafi fólk, sem lifði óveðrið af, verið matar- og vatnslaust í fjóra sólarhringa.

Sameinuðu þjóðirnar segja, að mikið og erfitt verk bíði hjálparsamtaka sem reyna að koma gögnum til fólks á flóðasvæðunum. Óttast er að sjúkdómar breiðist þar út innan skamms. 

Samkvæmt upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, er unnið að því, ásamt samstarfsaðilum og yfirvöldum í Búrma, að tryggja íbúum landsins neysluhæft vatn, að setja upp örugg frárennsliskerfi og bæta hreinlætisaðstöðu.

Einnig munu samtökin leitast við að tryggja börnum vernd og aðstoða þau við að snúa aftur í skóla eins fljótt og auðið er. Meðal birgða sem brýnast er að koma til bágstaddra á þessu stigi málsins eru vatnshreinsitöflur, áhöld til eldunar, flugnanet, nauðsynleg sjúkragögn og matur.
  
Yfir 60 prósent íbúa landsins eru konur og börn. Þessir hópar eru líklegir til að verða mest fyrir barðinu á afleiðingum veðurofsans. Reynslan sýnir að börn eru afar berskjölduð fyrir öllum þeim hættum sem fylgja í kjölfar náttúruhamfara, samkvæmt upplýsingum frá UNICEF.
 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert