8600 manns látnir í Kína

Staðfest hefur verið að í það minnsta 8.600 manns létu lífið af völdum kröftugs jarðskjálfta sem reið yfir suðvestur Kína í dag, þar af 5000 í einni sýslu.  Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua hefur þessar tölur eftir stjórnvöldum í Sichuan héraði.  Skjálftinn átti upptök sín skammt frá höfuðborg héraðsins Chengdu klukkan 14:28 að staðartíma og mældist 7,8 á Richter.

Á fréttavef BBC kemur fram að Beichuan sýslan varð einna verst úti og greint hefur verið frá því að 80% bygginga í sýslunni hafi hrunið, og allt að 5000 manns látið lífið og 10.000 slasast. 

Þá hefur verið greint frá því að hundruð manna voru grafin í rústum tveggja efnaverksmiðja í Shifang, 50 km frá upptökum skjálftans.  Fimm skólar eru sagðir hafa hrunið í skjálftanum og 900 nemendur voru sagðir grafnir undir rústum gagnfræðaskóla í borginni Dujiangyan.  50 þeirra hafa fundist látnir. 

Óttast er að tala látinna muni hækka umtalsvert þegar komið hefur í ljós hversu miklar hörmungarnar hafa átt sér stað í Wenchuan sýslu, þar sem skjálftinn átti upptök sín.   Landslag Wenchuan sýslu er hrjúft og fjöllótt, og mikið af brúm sem tengjast á milli fjallstoppa.  Engar fréttir hafa borist frá sýslunni, níu klukkutímum eftir að skjálftinn reið yfir.  Björgunarsveitir hafa ekki getið komist til Wenchuan þar sem vegir hafa eyðilagst og allar fjarskiptalínur við sýsluna liggja niðri.

Fjöldi eftirskjálfta hefur riðið yfir eftir stóra skjálftann sem fundið var fyrir í Peking, í 1545 km fjarlægð og í tælensku höfuðborginni Bangkok, í 1800 km fjarlægð.  Samkvæmt upplýsingum Xinhua er þetta öflugasti jarðskjálfti sem hefur komið upp í Sichuan héraði í meira en 30 ár.  87 milljónir manna búa í héraðinu sem er eitt það fjölmennasta í Kína.

Rúsir húss í borginni Dujiangyan, í Sichuan héraði.
Rúsir húss í borginni Dujiangyan, í Sichuan héraði. STRINGER SHANGHAI
Leitað að fórnarlömbum í rústum húsa sem hrundu í skjálftanum.
Leitað að fórnarlömbum í rústum húsa sem hrundu í skjálftanum. STRINGER SHANGHAI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert