Danskur ráðherra rýfur umdeilda þögn sína

Birthe Rønn Hornbech, ráðherra innflytjenda og aðlögunarmála í Danmörku, hefur loks rofið þögn sína og lýst því yfir að hún muni fylgja þeirri stefnu stjórnarinnar að banna dómurum að bera höfuðslæður múslímakvenna við störf sín. Hornbech hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að neita að svara spurningum um afstöðu sína til málsins. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Þegar maður tekur þátt í stjórnarsamstarfi þá stendur maður við þær ákvarðanir sem teknar eru innan þess. Þetta er eins og hjónaband þar sem fólk getur ekki kosið hvort gegn öðru,” sagði hún í sjónvarpsviðtali sem sýnt var í danska ríkissjónvarpinu DR í dag.

Hún staðfesti að hún væri mótfallin ákvörðun stjórnarinnar en sagðist ætla að tala máli sínu innan stjórnarinnar en ekki tjá sig frekar um það opinberlega. Grein hennar um málið sem birtist í blaðinu Politiken þykir hafa skapað mikla spennu í dönskum stjórnmálum að undanförnu og ýtt enn frekar undir flokkadrætti þeirra sem eru með og á móti því að múslímar í Danmörku aðgreini sig opinberlega frá öðrum.

mbl.is