Fórnarlömb fellibyls þvinguð til síns heima

Óstaðfestar fréttir herma að stjórnvöld í Burma þvingi nú fórnarlömb fellibylsins aftur til síns heima til að sýna umheiminum að þau hafi ástandið undir stjórn, þrátt fyrir að ekkert bíði fólksins og allt sé enn í rúst. Þetta fullyrða margir hjálparstarfsmenn á vettvangi.

Sameinuðu Þjóðirnar hafa gagnrýnt hina þvinguðu flutninga og segja það auka líkur á sjúkdómafaröldrum að  flytja milljónir flóttamanna úr neyðarskýlum og á svæði þar sem engin hjálpargögn eru til staðar.

Hjálparstarfsmenn segja að fjölmörg klaustur, skólar og opinberar byggingar sem notuð hafa verið sem neyðarskýli standi nú tóm eftir að stjórnvöld hafi þvingað fólk aftur heim til sín. Þetta sé gert til að sýna að verið sé að vinna að uppbyggingu án erlendrar aðstoðar.

SÞ segja að að minnsta kosti tvö hundruð þúsund manns bíði enn eftir matarbirgðum, mánuði eftir að fellibylurinn Nargis skall yfir landið. Mörg hjálparsamtök segja að víða sé fólk sem hafi alls enga aðstoð fengið. 

Stjórnvöld í Búrma tilkynntu á mánudag að fjölmargir skólar á hrjáðu svæðunum yrðu brátt opnaðir, þvert á ráðleggingar hjálparstofnana sem óttast skaðleg áhrif á heilsu barnanna.

Stjórnvöld í Búrma segja 78.000 hafa látist í hamförunum og að 56.000 sé saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert