Benedikt XVI: Hungur óviðunandi

Beðið eftir hrísgrjónaúthlutun á Filippseyjum.
Beðið eftir hrísgrjónaúthlutun á Filippseyjum. Reuters

Benedikt XVI páfi sagði í ávarpi á matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Rómarborg á Ítalíu í morgun að hungur og vannæring sé óviðunandi í heimi sem býr við nægar auðlindir. Að sögn páfa bíða milljónir um allan heim eftir því að lausn finnist. Hvetur hann þjóðir heims til þess að finna lífsnauðsynleg úrræði.

Á matvælaráðstefnunni varaði framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon, við því að ef mæta á ört vaxandi þörf eftir matvælum í heiminum verði að auka matvælaframleiðslu heimsins um 50% fyrir árslok 2030.

Í umfjöllun fréttavefjar BBC um matvælaráðstefnuna kemur fram að matarkostnaður hafi ekki verið jafn hár í þrjátíu og ár og í fjölda landa hafa komið til átaka vegna þessa.

Kastljós fjölmiðla hefur ekki einungis beinst að þeim málefnum sem ræða á í Róm heldur einnig að Robert Mugabe, forseta Zimbabwe, sem situr ráðstefnuna þrátt fyrir ferðabann til ríkja Evrópusambandsins. Sendinefndir Bretlands og Ástralíu hafa mótmælt harðlega þeirri ákvörðun að heimila Mugabe að sitja ráðstefnuna og er talið að fjöldi sendinefnda muni sniðganga Mugabe á ráðstefunni sem lýkur á fimmtudag.

Robert Mugabe við komuna á ráðstefnuna.
Robert Mugabe við komuna á ráðstefnuna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina