Nær öllum konum nauðgað

Bresk skólabörn skoða eftirlíkingu af rústum þorps í Darfur sem …
Bresk skólabörn skoða eftirlíkingu af rústum þorps í Darfur sem komið hefur verið upp á Trafalgar torgi í London í tilefni af alþjóðlegum degi flóttamanna. AP

Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna og hjálparstarfsmenn í Darfur-héraði í Súdan segja að af þeim hörmungum sem íbúar héraðsins þurfi að lifa við sem sé mikilvægast að taka á reglubundnum nauðgunum kvenna og barna. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Segja þeir að þúsundum barna og kvenna, allt niður í fjögurra ára aldur hafi verið nauðgað í héraðinu og að svo virðist sem nauðgun sé notuð sem vopn til þjóðernishreinsana. „Einn stærsti vandinn í Darfur eru nauðganir og aðrir glæpir gegn konum og börnum,” segir Michael Fryer, lögreglustjóri friðargæsluliðs UNAMID.

Segir hann friðargæsluliða og hjálparstarfsmenn í héraðinu hika við að greina frá umfangi vandans af ótta við að yfirvöld í Súdan bregðist við því með því að vísa þeim úr landi.

Hjálparstarfsmenn, sem fréttamaður CNN, ræddi við sögðust telja að nærri öllum konur í flóttamannabúðum í héraðinu hafi verið nauðgað eða þær beittar annars konar kynbundnu ofbeldi.

Segja þeir algengt að unglingsstúlkur séu reglulega neyddar til kynmaka þar sem þær verði á vegi bæði uppreisnarmanna og hermanna. Þá segja þeir karla neita að veita stúlkunum vernd þar sem þeir óttist að verða drepnir reyni þeir að verja þær.

Yfirvöld í Súdan vísa hins vegar öllum slíkum staðhæfingum á bug og segja að um áróður erlendra starfsmanna sé að ræða. „Nauðganir eiga sér ekki stað í Darfur," segir Mohammad Hassan Awad, yfirmaður mannréttindamála í vesturhluta Darfur. Hjálparstarfsmenn segja einnig mikið um það að mæður yfirgefi börn sem getin eru með nauðgunum og nefna dæmi um flóttamannabúðir með 22.000 flóttamönnum, þar sem um 20 nýfædd börn eru vikulega yfirgefin af mæðrum sínum.
mbl.is

Bloggað um fréttina