Móðir misþyrmdi fimm ára syni sínum skelfilega

Fimm ára drengur er á sjúkrahúsi í Los Angeles eftir að hafa verið bjargað frá móður sinni eftir skelfilegar misþyrmingar. Er talið að misþyrmingarnar hafi staðið yfir svo mánuðum skiptir en drengurinn er meðal annars þakinn brunablettum eftir sígarettur. Hann getur varla opnað lófana þar sem móðir hans hélt þeim á sjóðandi heitum eldavélarhellum og með brotna tönn með óvarða taug. Nýru drengsins eru skemmd vegna vannæringar. Hún hafði einnig látið drenginn sitja í eigin þvagi og saur langtímum saman, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum.

Fannst hjá heimilislausri manneskju

Ásaka borgaryfirvöld félagsmálayfirvöld um vanrækslu þar sem ekki var grennslast fyrir um hagi drengsins fyrr en upplýsingar höfðu borist um slæma meðferð móðurinnar fyrir einhverju síðan.  

Málið kom upp þegar kona hringdi í neyðarlínu þann 4. júní og sagðist hafa hitt drenginn á lestarstöð. Hafði drengurinn sagt konunni frá því að móðir hans hefði brennt hendur hans á eldavélarhellu. Þegar móðirin, Starkeisha Brown, var kölluð á fund hjá barna- og fjölskyldusviði Los Angeles þá kom hún með tvö börn með sér. Fjögurra ára gamlan son og dóttur barnfóstru sinnar og laug því að umrædd börn væru hennar og þau væru við góða heilsu.

Þegar félagsráðgjafi spurði nánar út í börnin og hvort þau væru í alvöru hennar börn hljóp móðirin út. Fannst drengurinn í nágrenninu eftir að einhver hringdi í Neyðarlínuna til þess að láta vita af því að veikt barn með alvarlega áverka hefði verið skilið eftir hjá heimilislausri manneskju á götunni.

Lögregla hefur aldrei vitað til þess að nokkur hafi lifað slíkar misþyrmingar af

Drengurinn var með þaninn kvið líkt og algengt er með börn sem þjást af vannæringu. Þegar lögregla sá drenginn varð hún fyrir áfalli. „Ég hef aldrei á ævi minni sé nokkurn með áverka sem þessa á lífi," sagði James McDonnell, aðstoðaryfirlögregluþjónn við fréttamenn. „Þessi drengur hlýtur að vera gríðarlega viljasterkur miðað við að vera enn á lífi þrátt fyrir það sem hann hefur þurft að ganga í gegnum."

Símtalið sem barst neyðarlínunni þann 4. júní var ekki það fyrsta sem barst vegna drengsins og er nú unnið að rannsókn á því hvers vegna ekki var brugðist við fyrr en fyrra símtalið kom í nóvember 2005, eða fyrir 2,5 ári. Þá var drengurinn í umsjón ömmu sinnar þar sem móðir hans hafði verið handtekin fyrir búðarhnupl.

Ættingjar trúðu því ekki að honum væri misþyrmt

Í viðtali við Los Angeles Times er haft eftir langömmu drengsins og tveimur öðrum að þau hefðu öll séð áverka á honum en ekki trúað því að honum væri misþyrmt. Eru þau miður sín nú að hafa ekki brugðist við.

Eiga yfir höfði sér 25 ára fangelsi

Móðir drengsins, sem er 24 ára, gaf sig fram við lögreglu þann 13. júní og var sambýliskona hennar handtekin í kjölfarið. Eru þær meðal annars ákærðar fyrir  pyntingar og samsæri. Eiga þær yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi verði þær fundnar sekar. Báðar konurnar hafa komist í kast við lögin áður. Sambýliskonan var dæmd í þriggja ára fangelsi skilorðsbundið fyrr á árinu fyrir árás með banvænu vopni. Móðirin hefur setið í fangelsi í 2,5 ár fyrir rán og fleiri brot.

Þriðja konan var handtekin nú í vikunni en hún starfar sem barnfóstra og er 26 ára. Er hún ákærð fyrir að hafa tekið þátt í því að brenna drenginn og samsæri. Sonur barnfóstrunnar, sem Brown reyndi að ljúga að væri sonur sinn, er nú í umsjón félagsmálayfirvalda og eins systir hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert