Leyniaðgerðir gegn Íran auknar

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti. Reuters

Bandaríska þingið samþykkti síðla á síðasta ári beiðni George W. Bush forseta um fjárveitingu til að auka til muna leynilegar aðgerðir gegn Íran með það að markmiði að grafa undan ráðamönnum þar, að því er bandaríska tímaritið New Yorker greinir frá á vef sínum í dag.

Í grein í tímaritinu segir blaðamaðurinn Seymour Hersh frá háleynilegum fyrirætlunum Bandaríkjastjórnar um að gera kjarnorkuáætlun Írans að engu og koma núverandi ráðamönnum frá, m.a. með „samstarfi við stjórnarandstöðuhópa og fjárframlögum.“

Hersh hefur áður skrifað um hugsanlegar fyrirætlanir bandarískra stjórnvalda um að fara í stríð við Íran til að koma í veg fyrir að stjórnin þar geti smíðað kjarnavopn. Í grein í New Yorker í hittiðfyrra sagði Hersh að endanlegt markmið Bush væri að koma núverandi ráðamönnum í Íran frá, annaðhvort með diplómatískum aðferðum eða hernaði.

Leiðtogar beggja flokka í báðum deildum þingsins samþykktu beiðni Bush um 400 milljóna dollara aukafjárveitingu til að auka leyniaðgerðir í Íran, segir Hersh. Aðgerðir bandarískra leyniþjónustuliða þar eru ekki nýjar af nálinni, en hafa aldrei verið eins umfangsmiklar og nú.

Meðal þeirra hópa í Íran sem njóta nú stuðnings Bandaríkjanna eru „Þjóðarandspyrnuhreyfing Írans,“ að því er haft er eftir fyrrverandi CIA manni. Annar embættismaður sagði þessa hreyfingu illskeytta og grunaða um að tengjast al-Qaeda.

Í grein Hersh segir, að stuðningur Bandaríkjanna við andspyrnuhreyfingar kunni að leiða til þess að írönsk stjórnvöld ráðist til harðra aðgerða, sem aftur gefi bandarískum stjónvöldum átyllu til innrásar í landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert