Yfirlýsing G-8 sögð útvötnuð

Yfirlýsings leiðtogafundar G-8 ríkjanna þar sem fram kemur að þeir hafi náð samkomulagi um sameiginlega framtíðarsýn varðandi minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda, sætir nú harðri gagnrýni. Segja náttúruverndarsinnar yfirlýsinguna útvatnaða og einskis verða þar sem ekki sé minnst á neinar beinar aðgerðir í henni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þá hafa fulltrúar Kínverja og Indverja lýst því yfir að þeir telji sig ekki skuldbundna af því markmiði sem sett er fram í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni setja leiðtogar G-8 ríkjanna sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming á næstu fimmtíu árum. Jim Connaughton, formaður nefndar George W. Bush Bandaríkjaforseta, um umbætur í umhverfismálum segir yfirlýsinguna hins vegar góðan grunn til að byggja á.  

Bush Bandaríkjaforseti féll á sínum tíma frá því að fullgilda Kyoto samninginn þar sem þar var ekki kveðið á um takmarkanir á losun Kínverja og Indverja á gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en losun þessara þjóða er um fjórðungur allrar losunar í heiminum. 

Fulltrúar Frakka og Kínverja á fundi í Japan í morgun.
Fulltrúar Frakka og Kínverja á fundi í Japan í morgun. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina