Gert að taka bílprófið aftur sökum samkynhneigðar

Dómstóll á Ítalíu hefur úrskurðað að ítölsk stjórnvöld eigi að greiða samkynhneigðum manni 100.000 kr. í skaðabætur. Ástæðan er sú að manninum var gert að endurtaka bílprófið sökum kynhneigðar sinnar.

Danilo Giuffrida, sem er 26 ára, sagði læknum frá því að hann væri samkynhneigður er hann fór í læknisskoðun hjá hernum.

Upplýsingunum var komið áfram til samgöngu- og varnarmálaráðuneytisins.

Giuffrida var í framhaldinu gert að taka bílprófið aftur eða missa það ellegar vegna „kynferðisbrenglunar“.

Giuffrida tók prófið og náði því. Hins vegar voru ökuréttindin aðeins endurnýjuð til eins árs, í stað 10 ára líkt og venja er, þar sem hann  er samkynhneigður, segir á vef BBC.

Dómstóll í Catania á Sikiley skipaði ráðuneytunum að greiða manninum skaðabætur á þeim grundvelli að brotið hafi verði gegn mannréttindum Giuffrida, auk þess sem samkynhneigð sé ekki talin vera geðsjúkdómur.

Dómarinn sagði að aðgerðir ráðuneytanna vera augljóst dæmi um kynferðislega mismunun.

Giuffrida fagnaði úrskurðinum og sagði að hann væri skref fram á við í baráttunni fyrir auknum mannréttindum.

mbl.is

Bloggað um fréttina