Assad: Stríð yrði dýrkeypt

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Reuters

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að ef Ísraelar og Bandaríkjamenn geri árás á Íran, vegna kjarnorkuáætlana þeirrar síðarnefndu, þá muni það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Bandaríkin, Ísrael og heimsbyggðina alla.

Mikið hefur verið rætt og ritað um mögulega árás Ísraela og Bandaríkjamanna á írönsk kjarnorkuver. Þær vangaveltur hafa nú fengið byr undir báða vængi eftir að fréttir bárust af því að Ísraelar hafi verið að búa loftherinn undir fyrir slíka árás á heræfingum.

„Þetta mun kosta Bandaríkin og heiminn mikið,“ sagði Assad í viðtali við franska útvarpsstöð í dag. Hann bætti við að slík árás myndi einnig hafa mikil áhrif á Ísrael.

„Ísraelar munu með beinum hætti fá að gjalda fyrir þetta stríð. Það hafa Íranar sagt. Vandinn felst ekki í aðgerðunum og viðbrögðum við þeim. Vandinn felst í því að þegar gripið er til svona aðgerða í Mið-Austurlöndum þá geta menn ekki tekið á þeim viðbrögðum sem geta breiðst út næstu árin eða áratugi,“ sagði hann.

Assad segir að ef menn beiti skynsemi verði ekki ráðist á Íran sökum afleiðinganna. Hann segir að núverandi Bandaríkjastjórn sé hins vegar á öðru máli.

Hann segir Bandaríkjastjórn hvetja til átaka og að hún beiti ekki skynsemi í samskiptum við önnur ríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert