Bandaríkjamenn aðvara Rússa

Fréttir herma að Georgía hafi kallað allt herlið sitt frá …
Fréttir herma að Georgía hafi kallað allt herlið sitt frá Suður-Ossetíu. Reuters

Bandarísk stjórnvöld hafa aðvarað Rússa og sagt að átökin í Georgíu geti skaðað tvíhliða tengsl ríkjanna. Bandaríkin segja aðgerðir Rússa keyra úr hófi fram og hætta sé að því að átökin stigmagnist enn frekar.

Jim Jeffrey, aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segir að Bandaríkjastjórn hafi gert Rússum grein fyrir afstöðu sinni í málinu leynt og ljóst. Jeffrey lét ummælin falla á blaðamannafundi í Peking í dag.

Spurður út í fréttir þess efnis að Georgíumenn séu byrjaðir að hörfa frá Suður-Ossetíu, segir Jeffrey að nú muni koma í ljós hvað Rússar ætli sér í raun og veru.

Bandaríkin hafa gagnrýnt loftárásir Rússa, og krafist þess að þeir virði fullveldi Georgíu.

Stjórnvöld í Georgíu segjast hafa kallað allt herlið sitt frá S-Ossetíu og hafa beðið Bandaríkin um að miðla málum í deilunni svo binda megi endi á hana. Skv. rússneskum tölum hafa rúmlega 2000 fallið í átökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina