Draumurinn lifir í Obama

Barack Obama var hælt á hvert reipi þegar flokksþing bandaríska Demókrataflokksins hófst í Denver í Colorado í gærkvöldi. Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður, sem gegnst nú undir meðferð vegna heilaæxlis, hélt m.a. ræðu þar sem hann sagði að draumurinn um betra þjóðfélag lifði áfram í Obama.

Obama mun flytja þakkarræðu sína á íþróttaleikvangi í borginni á fimmtudag og er búist við að 80 þúsund manns muni hlýða þar á ræðuna.

Michelle, eiginkona Obamas, flutti aðalræðuna á flokksþinginu í gærkvöldi og sagði þar að eiginmaður hennar yrði framúrskarandi forseti. Hún lagði áherslu á að þau hjónin og tvær dætur þeirra væru venjuleg bandarísk fjölskylda sem hefði í heiðri hefðbundin bandarísk gildi.

Sagði hún að þau hefðu bæði lært það í uppvextinum, að standa við orð sín og koma fram við annað fólk af virðingu og reisn.

Repúblikanaflokkurinn mun tilnefna John McCain sem forsetaefni sitt á flokksþingi í Minneapolis-St Paul í Minnesota í næstu viku. Ef marka má skoðanakannanir njóta frambjóðendurnir tveir jafn mikils fylgis meðal bandarísku þjóðarinnar. 

mbl.is