Norðmenn reiðubúnir til viðræðna við bin Laden

Mynd af Osama bin Laden frá 1998.
Mynd af Osama bin Laden frá 1998. AP

Norðmenn hafa nú fetað í fótspor Svisslendinga og lýst sig reiðubúna til viðræðna við hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden, að því er Raymond Johansen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, sagði í dag. Þetta þýði þó ekki að Norðmenn ætli að gefa eftir í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum.

„Maður þarf ekki að semja um frið við vini sína heldur óvininn,“ sagði Johansen við Dagsavisen. Hamid Karzai, forseti Afganistans, hafi ennfremur hvatt til sátta meðal hinna ýmsu hópa í Afganistan, þ. á m. fylgismanna bin Ladens.

„Við erum fylgjandi því. Samskipti og samræður skila miklum árangri.“ Johansen bætti því við, að „sáttavilji er ekki til marks um veikleika.“

Utanríkisráðherra Sviss, Micheline Calmy-Rey, sagði er hún fór í heimsókn til Írans að Svisslendingar væru tilbúnir til viðræðna við bin Laden. Hún er fyrsti utanríkisráðherra lýðræðisríkis sem hvetur til viðræðna við bin Laden, og sagði hún að Svisslendingar ættu ekki annars úrkosti, því þeir hefðu engan herafla.

Johansen kvaðst ekki fara í grafgötur með það, að bin Laden hefði engan áhuga á friðarviðræðum.

„Ég held að Osama bin Laden og þeir sem hafa völdin í al-Qaeda hafi engan áhuga á viðræðum,“ sagði Johansen. „Þeir hafa meiri áhuga á að drepa trúleysingja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina