NATO neitar fréttum um vígbúnað

NATO vísaði í dag á bug ásökunum Rússa um að bandalagið væri að fjölga í sjóher sínum á Svartahafi en spenna hefur magnast þar í kjölfar hernaðarátaka Rússa og Georgíumanna.

„NATO er ekki að byggja upp flotastyrk á Svartahafi eins og rússnesk stjórnvöld halda fram í fjölmiðlum," sagði Carmen Romero, talsmaður NATO.

Bandalagið sagði, að fimm herskip væru á Svartahafi undir fána NATO við hefðbundnar æfingar, sem löngu hefðu verið skipulagðar. Sótt hefði verið um leyfi fyrir skipin í júní.

Talsmaður Vladímírs Pútíns, forsætisráðherra Rússlands, sagði í gær, að Rússar hefðu ákveðið að gera varúðarráðstafanir vegna herskipa Bandaríkjanna og NATO en vonir stæðu til að ekki kæmi til beinna átaka.

Talsmaðurinn sagði, að það væri ekki vani að flytja hjálpargögn með herskipum og vísaði þar til bandarískra herskipa, sem hafa flutt hjálpargögn til Georgíu í kjölfar átaka Rússa og Georgíumanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert