„Hann var bara venjulegur strákur“

Matti Juhani Saari á myndskeiði sem hann setti á YouTube.
Matti Juhani Saari á myndskeiði sem hann setti á YouTube. Reuters

Á yfirborðinu var hann bara venjulegur strákur. Honum gekk vel í skóla, hann var þögull en ekki einmana þó hann byggi einn með kettinum sínum.

Þannig lýsa vinir Matti Juhani Saari honum, en Saari réðst í gærmorgun til atlögu gegn skólasystknum sínum í iðnskólanum í Kaukajoki í Finnlandi og drap níu samnemendur sína og einn starfsmann skólans áður en hann framdi sjálfsvíg.

Í úttekt danska dagblaðsins Politiken kemur fram að vinir Saari telja að vopnuð árás sem hann varð fyrir í febrúar sl. hafi markað djúp spor í vitund Saari og hugsanlega leitt til þess sem síðar varð.

Á vef TV2 News er haft eftir vinum Saari að hann hafi verið afar félagslyndur og vel liðinn. Hins vegar hafi það breyst þegar hann flutti frá heimabæ sínum, Pyhäjärvi, til Kaukajoki til að stunda nám. 

Árið 2006 þjónaði Matti Saari herskyldu í Kainuu Brigade herbúðum í bænum Kajaani í suðurhluta Finnlands. Dvöl hans þar lauk hins vegar skyndilega og hann hætti í hernum. Ekki er vitað hvers vegna, en ljóst megi vera að Saari leið ekki vel í hernum. Að sögn vina hans varð Saari fyrir miklu einelti í hernum. Í febrúar sl. varð Matti Saari fyrir árás við pylsuvagn þegar 36 ára gamall maður ógnaði Saari með byssu og hræddi þannig úr honum líftóruna.

Að mati eins foreldris nemenda við iðnskólann í Kaukajoki breyttist Saari þegar hann fór að sýna skotvopnum sífellt meiri áhuga. Finnska lögreglan upplýsti í dag að hún hefði fundið bréf heima hjá Saari þar sem fram kom að hann hafi lagt drög að skotárásinni sl. sex ár. Í einu bréfanna sagðist hann hata mannkyn allt og að eina lausnin væri Walther P22 skammbyssa. Samkvæmt heimildum TV2 News ber mönnum ekki saman um hvar Saari hafi fengið þjálfun sína í að meðhöndla skotvopn, því ekki sé vitað til þess að hann hafi verið meðlimur í skotfélagi. 

Einn af bestu vinum Saari, Joni Helminen, er heppinn að hafa sloppið lifandi frá árásinni í gær. Helminen mætti líkt og aðrir bekkjarfélagar Saaris í skólann til þess að taka próf. „Mér gekk vel, varð snemma búinn með prófið og fór því í hádegismat,“ segir Helminen og tekur fram að hann hafi einmitt furðað sig á því hvers vegna Saari hafi ekki mætt í prófið, því seinast kvöldið áður höfðu þeir rætt um prófið sem þeir þurftu báðir að taka. Stundarfjórðungi eftir að Helminen yfirgaf prófastaðinn mætti Saari í kennslustofuna þar sem prófið fór fram og hóf að skjóta á samnemendur sína.

Haft er eftir lögreglunni að Saari hafi augljóslega skotið samnemendur sína með það að markmiði að drepa þá en ekki særa. Lögreglan vinnur ennþá að því að bera kennsl á líkin, en það hefur reynst vandasamt þar sem sum þeirra eru svo illa brunninn að marga daga getur tekið að bera kennsl á þau. 

Aðspurður segir Helminen að Saari virðist ekki hafa tekið því illa að vera kallaður til yfirheyrslu á lögreglunni daginn áður vegna myndskeiðanna sem hann hafði sett inn í You Tube. Helminen upplýsir einnig að Saari hafi verið verið í sálfræðimeðferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert