Hægri öfgamenn fagna í Austurríki

Heinz-Christian Strache var ánægður með árangurinn.
Heinz-Christian Strache var ánægður með árangurinn. Reuters

Leiðtogi hægri öfgamanna í Austurríki, Heinz-Christian Strache, fagnaði góðu gengi Frelsisflokksins í þingkosningunum sem fram fóru í dag. Flokkurinn endaði í þriðja sæti, en hann hlaut 18,2% atkvæða. Strache segir árangurinn vera sögulegan.

„Á aðeins þremur árum hefur mér tekist að tífalda stuðninginn við okkur,“ sagði hann í samtali við austurrísku sjónvarpsstöðina ORF.

Þegar hann tók við formennsku í flokknum árið 2005 mældist stuðningurinn við hann vera um 2-3%. Þá sagði leiðtogi hægri öfgamanna, Jörg Haider, skilið við flokkinn.

Stuðningur við flokkinn, sem þekktur fyrir andstöðu sína gagnvart ESB og í innflytjendamálum, jókst um 7% í dag samanborið við síðustu þingkosningarnar, sem fram fóru í október 2006.

Strache segist vera reiðubúinn að mynda samsteypustjórn með sósíal demókrötum. Þeir hlutu flest atkvæði, þrátt fyrir að flokkurinn hafi aldrei fengið verri útreið í kosningum. Flokkurinn fékk um 30% atkvæða.

mbl.is

Bloggað um fréttina