Fogh Rasmussen: Ókostur að vera ekki í myntbandalaginu

Anders Fogh Rasmussen
Anders Fogh Rasmussen THIERRY ROGE
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að þær hræringar sem átt hafi sér stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýni að það er ókostur fyrir Dani að standa fyrir utan myntbandalag Evrópu, evruna.

Fogh Rasmussen segir að danska ríkisstjórnin muni standa við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Danir eigi að taka upp evruna áður en næstu þingkosningar fara fram í landinu árið 2011.

Þar sem Danmörk á ekki aðild að myntbandalagi Evrópu var dönskum stjórnvöldum ekki boðið að taka þátt í viðræðum sem fjármálaráðherrar evru-ríkjanna áttu um helgina um hvernig bregðast ætti við kreppu á fjármálamörkuðum. Eins þurfti danski seðlabankinn að hækka stýrivexti í síðustu viku til þess að verja gengi dönsku krónunnar í síðustu viku á sama tíma og Seðlabanki Evrópu lækkaði stýrivexti.

Fogh Rasmussen sagði í dag að í fyrsta skipti sæist berlega hvaða það þýði fyrir Dani að standa fyrir utan myntbandalagið.
mbl.is