Segir Evrópusambandsaðild hafa bjargað Írum

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, segir aðild landsins að Evrópusambandinu hafa bjargað landinu frá sömu örlögum og Ísland tekst nú á við í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í viðtali á Cowen við fréttastofu Reuters. „Í efnahagslegu tilliti, væri Írland í miklu verri stöðu ef landið hefði ekki verið aðili að Evrópusambandinu og þannig notið góðs af aðgerðum evrópska seðlabankans á undanförnum vikum og mánuðum,“ sagði Cowen í viðtali við Reuters fyrr í dag.

Bankakreppan, sem leikið hefur fjármálastofnanir um allan heim grátt á undanförnum vikum og mánuðum, hefur skapað mikil vandamál víðar en á Íslandi. Cowen segir ljóst að það væri erfitt fyrir landið að takast á við vandann ef evrópska seðlabankans hefði ekki notið við. „Aðgangurinn að evrópska seðlabankanum er miklu sterkari stoð heldur en seðlabanki Írlands eða Íslands. Það liggur í augum uppi,“ sagði Cowen og vitnaði til efnahagsvandamála sem Ísland glímir nú við. „Ég vil ekki til þess hugsa sem staðan hjá okkur væri eins og hjá þeim (Íslendingum), með okkar eigin myntkerfi,“ bætti Cowen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert