Fjölmiðlafár í Bretlandi út af snekkjudvöl stjórnmálamanna

Peter Mandelson viðskiptaráðherra
Peter Mandelson viðskiptaráðherra Reuters

Leiðtogar breska Íhaldsflokksins hafa með nokkuð óvæntum hætti dregist inn í pólitískt moldviðri heima fyrir vegna dvalar Mandelsons lávarðar og nýskipaðs viðskiptaráðherra Breta um borð í snekkju ríkasta ólígarkans í Rússlandi, Oleg Deripaska.

Vinur Mandelsons hefur upplýst að Georg Osborne, sem fer með fjármál í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins, og Andrew Feldman, helsti fjáröflunarforkólfur David Cameron, leiðtoga íhaldsmanna, hafi báðir verið um borð í snekkju Deripaska, K drottningu, í sumar sem leið.

Samkvæmt fréttum í The Times var á þessum fundi til umræðu hugsanlegt 50 þúsund punda framlag frá Deripaska í kosningasjóð Íhaldsflokksins. Upplýsingarnar koma fram í bréfi til blaðsins frá sameiginlegum kunningja Osborne og Mandelsons, Nathaniel Rothschild. Rothschild heldur því fram að um borð í snekkjunni sem lá þá bundin við festar á eyjunni Korfu, hafi Feldman stungið því að ólígarkanum að hann veitti peningunum í gegnum eitt af fyrirtækjum sínum sem skráð eru í Bretlandi.

Óheimilt er í Bretlandi að taka við framlögum af þessu tagi frá erlendum aðilum sem og að nota bresk fyrirtæki til að breiða yfir hvaðan framlögin koma. Talsmenn Íhaldsflokksins hafa harðlega neitað því að nokkuð slíkt hafi verið á ferðinni og lagt áherslu á að ekki hafi verið tekið við neinum framlögum frá Deripaska, þó að viðurkennt sé að þeir Osborne og Feldman hafi gert stuttan stans um borð í snekkjunni.

Mandelson hefur sömuleiðis fordæmt að vera hans um borð í snekkjunni skuli gerð tortryggileg því að hann hafi verið þar og notið gestrisni Deripaska meðan hann var enn yfirmaður viðskiptamála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. 

Varla getur verið tilviljun að þetta mál sé vakið upp einmitt núna í þann mund sem Mandelson á að koma fyrir þingnefnd breska þingsins  og sitja fyrir svörum eftir óvænta endurkomu í bresk stjórnmál sem viðskiptaráðherra. Né heldur að leiðtogar íhaldsmanna skuli dragast inn í moldviðrið.

Málið allt þykir bera með sér fingraför spunameistara úr báðum fylkingum en þeir eru óvíða fyrirferðarmeiri en í beskum stjórnmálum.

George Osborne.
George Osborne.
mbl.is

Bloggað um fréttina