Seðlabankastjórinn dæmdur fyrir spillingu og fjárdrátt

Burhanuddin Abdullah sagðist við dómsuppkvaðningu í morgun vera alsaklaus.
Burhanuddin Abdullah sagðist við dómsuppkvaðningu í morgun vera alsaklaus. AP

Fyrrverandi seðlabankastjóri Indónesíu var í morgun dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir spillingu og fjárdrátt upp á 11 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur 1,3 milljörðum króna. Peningana notaði hann meðal annars til að múta þingmönnum landsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hneykslismál skekja seðlabanka landsins, slíkt hefur gerst nokkrum sinnum á undanförnum áratug.

Hinn sextugi Burhanuddin Abdullah, stýrði seðlabanka Indónesíu allt frá árinu 2003 þangað til í maí. Þá var hann settur af vegna rannsóknar málsins. Burhanuddin var sakfelldur fyrir að hafa tekið úr sjóðum bankans 11 milljónir dala og yfirfært með ólögmætum hætti á reikninga að minnsta kosti tveggja þingmanna sem nú sitja í ríkisstjórn landsins.

Ennfremur var hann sakfelldur fyrir að hafa notað almannafé til að greiða fyrir málsvörn fyrrverandi bankastjóra, sem sættu ákærum vegna spillingar.

Tengdafaðir sonar núverandi forseta Indónesíu er einnig talinn flæktur í málið en ákæra hefur ekki verið gefin út á hendur honum.

Auk fimm ára fangelsisvistar var Burhanuddin Abdullah dæmdur til að greiða 22.500 Bandaríkjadali í sekt eða sem nemur hálfri þriðju milljón íslenskra króna. Hann sagðist við dómsuppkvaðningu vera alsaklaus og ætlaði að áfrýja til æðra dómstigs.

mbl.is