Kynhvöt kaþólskra presta könnuð

AP

Benedikt XVI. páfi hefur samþykkt nýjar reglur sem kveða á um sérstök sálfræðipróf fyrir þá presta sem vígjast til þjónustu innan kirkjunnar. Sjónum er sérstaklega beint að kynhvöt og kynhegðan en hrina hneykslismála hefur skekið kaþólsku kirkjuna síðustu ár.

Sálfræðiprófin verða aðeins gerð með samþykki viðkomandi og eiga þau að draga úr hættunni á að frekari kynlífshneyksli komi upp innan kirkjunnar.

Í reglum Páfagarðs er nákvæmlega farið yfir það hvernig prófin skuli framkvæmd og að hverju leitað. Reynt er að finna þá sem ekki geta haft stjórn á kynhvöt sinni, leitað er merkja samkynhneigðar og tvíkynhneigðar og sérstök áhersla er lögð á að kanna hvort skírlífi reynist viðkomandi erfitt.

Í reglunum er einnig áskilnaður um viðhorf presta til karlmennsku.

Kynlífshneyksli og níðingsmál hafa ítrekað komið upp innan Kaþólsku kirkjunnar á undanförnum árum, einkum í Bandaríkjunum, Evrópu og Suður-Ameríku, með tilheyrandi málaferlum og kostnaði upp á hundruð milljóna Bandaríkjadala.

mbl.is