Fyrirburafæðingum fjölgar í Bretlandi

Fyrirburafæðingum hefur fjölgað umtalsvert í Bretlandi síðustu tvö ár. Hlutfall fyrirbura af fæðingum í landinu er nú komið í 8,6% en hefur síðustu 15 ár verið í kringum 7%.

Sérfræðingar í Bretlandi segja að rúmlega 10 þúsund fleiri fyrirburar fæðist nú á ári en fyrir tveimur árum. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi segja að skýringanna sé að leita í fjölgun yngri og eldri mæðra.

Nálægt 75% ungbarnadauða og innlagna nýbura á gjörgæsludeildir, má rekja til fyrirburafæðinga eða fæðinga fyrir 37. viku meðgöngu. Fyrirburum er hættara við fötlun og veikindum á lífsleiðinni.

Sérfræðingar segja að fleiri skýringar kunni að vera á fjölgun fyrirburafæðinga en aldur mæðra. Reykingar á meðgöngu auki mjög líkur á fyrirburafæðingu, sýkingar í legi og tví- og þríburaþungun. Þá kunni að vera að breytt skráning skýri fjölgunina að einhverju leyti.

mbl.is