Er Guð nauðsynlegur?

Reuters

Hópur trúleysingja í Bandaríkjunum hóf í dag auglýsingaherferð þar sem þess er spurt hvers vegna Bandaríkjamenn þurfi á Guði að halda til að vera góðir. Í Bandaríkjunum biðja sex af hverjum reglulega til Guðs og þrír fjórðu hlutar trúa á tilvist himnaríkis.

„Hvers vegna að trúa á Guð? Verið bara góð góðvildarinnar vegna,“ er meðal þess sem segir á auglýsingum sem birtust í dag í dagblöðunum Washington Post og New York Times. Auglýsingarnar verður svo að sjá á strætisvögnum Washingtonborgar í byrjun næstu viku.

Tilgangur herferðarinnar er „að ná til fólks sem ekki trúir á Guð og gera þeim skiljanlegt að það er ekki eitt á báti, sérstaklega í kringum hátíðir þar sem trúarleg skilaboð berast í miklu magni,“ segir Roy Speckhardt sem er framkvæmdastjóri Samtaka húmanista í Bandaríkjunum, sem stendur að baki herferðarinnar.

Þó að auglýsingarnar hafi aðeins birst í tveimur dagblöðum hafa þau vakið mikil viðbrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina