Fritzl ákærður fyrir morð

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP

Ríkissaksóknari í Austurríki hefur ákært Josef Fritzl fyrir morð en Fritzl hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í vor eftir að í ljós kom að hann hefði haldið dóttur sinni fanginni í kjallara húss síns í 24 ár.

Er hann ákærður fyrir morð þar sem eitt af sjö börnum sem hann eignaðist með dóttur sinni lést fljótlega eftir fæðingu árið 1996. Talið er að Fritzl hafi brennt líkið. Saksóknari segir að sérfræðingar telji að barnið hefði mögulega getað lifað ef Fritzl hefði útvegað því læknishjálp.

Fritzl er jafnframt ákærður fyrir nauðgun, sifjaspell, fyrir að halda fjölskyldunni fanginni og þrælahald. Stefnt er að því að réttarhöldin yfir Fritzl hefjist í byrjun næsta árs.

Fritzl hefur þegar játað að hafa haldið Elisabeth dóttur sinni í jarðhýsi, sem hann gróf og innréttaði undir heimili fjölskyldunnar í Amstetten. 

Geðlæknar hafa komist að þeirri niðurstöðu að Fritzl sé sakhæfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert